Eiga samningar alltaf að halda?


Stundum kemur upp sú staða í samningssambandi aðila, að annar samningsaðilinn telur á sér brotið. Í slíkum málum þarf að horfa til vanefndarúrræða þeirra, sem samningurinn og íslensk lög bjóða upp á. Ein af grunnreglum íslensks réttar er reglan um að samninga skuli halda, pacta sunt servanta á latínu. Reglan er grunnur laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 -- samningalaganna svokölluðu -- sem og fjölmargra annarra laga. Talið er að reglan um að samninga skuli halda sé forsenda þess að eignir, þar á meðal kröfuréttindi, geti skipt um hendur í frjálsum viðskiptum. Reglan er í raun meginregla í rétti flestra þjóða -- sem og í alþjóðarréttinum -- og á hún rætur sínar að rekja til Rómarréttarins.

Í íslenskum rétti er vísað til reglunnar daglega fyrir dómstólum. Reyndar er reglan svo almenn að íslenskir lögmenn láta sér yfirleitt nægja að vísa til "meginreglna samningaréttarins" þegar horft er til reglunnar, án þess að útskýra það nánar.

Við samningsbrot er almennt viðurkennt að sá samningsaðili, sem brotið er á, getur beitt svokölluðum vanefndarúrræðum. Á meðal þeirra úrræða eru t.d. riftun samnings, skaðabætur og krafan um efndir in natura, sem felur það í sér að sá sem brotið er á krefst þess að samningurinn sé efndur skv. aðalefni sínu -- að samninginn skuli halda. Að meginstefnu er talið að riftun samnings -- sem er eitt afdrifaríkasta úrræðið -- geti aðeins átt sér stað þegar um er að ræða verulega vanefnd samnings.

Reglan um áskilnað verulegrar vanefndar styðst við þau rök að riftun er það úrræði sem lengst gengur og getur valdið hvað mestri röskun á hagsmunum aðila. Þannig er því horft til þess að þegar samningur hefur verið vanefndur í verulegum atriðum, er löglíkur á því að kröfuhafi hafi ekki lengur sömu hagsmuni af því að fá samkvæmt samningunum samningsbundnar greiðslur (sem geta verið í hvaða formi sem er). Þarna þarf því einnig að skoða vandlega merkingu orðanna veruleg vanefnd þar sem um er að ræða matskennt atriði sem ekki er hægt að hengja utan í nákvæmt viðmið án þess að taka tillit til eðlis vanefndarinnar og samningssambandsins, sem um ræðir. Þannig myndi t.d. greiðsludráttur í eina viku varla falla undir verulega vanefnd, nema fleira kæmi til.

En hvað er það þá sem skiptir kannski hvað mestu máli við þetta mat á því, hvort heimilt sé að rifta samningi á grundvelli verulegrar vanefndar? Jú, mest um vert er að líta til þeirra áhrifa sem vanefndin hefur á hagsmuni kröfuhafans -- þ.e. hvort að áhrifin séu lítil og óveruleg og svo eins hvað skuldarinn hlaut að álíta í þeim efnum. Þannig er ljóst að vanefnd á tiltölulega lágri peningaupphæð getur talist veruleg vanefnd, ef um mikla hagsmuni er að ræða fyrir kröfuhafa. Fjárhagsstaða kröfuhafans myndi í þannig máli skipta umtalsverðu máli.

Hérna er aðeins tæpt á örfáum atriðum, sem koma til skoðunar, þegar upp kemur ágreiningur í samningssambandi. Eins og sjá má af þessari stuttu (og á engan hátt tæmandi) umfjöllun, er ljóst að það er í mörg horn að líta. Einfaldast er náttúrulega að spá ekkert í þessu -- og efna einfaldlega þá samninga sem maður undirgengst skv. aðalefni þeirra. Enda eiga samningar að halda.

Áhugaverðar greinar
Nýlegar greinar
Sarpurinn
Tögg

© 2017 // ESJA Legal ehf. Allur réttur áskilinn.

  • Facebook Clean
  • LinkedIn Clean