Persónuleg ábyrgð lögmanna og takmörkuð ábyrgð á einkahlutafélögum


Reglan um takmarkaða ábyrgð í félagarétti er flestum kunn. Í grunninn gengur reglan út á það að eigendur einkahlutafélaga og hlutafélaga bera enga persónulega ábyrgð á rekstrinum, fari allt til verri vegar. Þegar hlutafélag eða einkahlutafélag er tekið til gjaldþrotaskipta, takmarkast ábyrgð eigenda við inngreitt hlutafé. Þeir tapa þannig þeim fjármunum sem þeir lögðu inn í reksturinn upphaflega, en bera ekki ábyrgð að öðru leyti á skuldum félagsins gagnvart kröfuhöfum. Regluna má finna í 1. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 2. mgr. 1. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.

Í rekstri lögmannsstofa er á þessu ein mikilvæg undantekning, sem snýr eingöngu að þeim verkefnum sem lögmenn fela öðru lögmönnum að leysa fyrir sína hönd. Í 29. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands, Codex Ethicus, er að finna svohljóðandi reglu: "Lögmaður sem leitar aðstoðar eða álits annars lögmanns um tiltekna þætti verkefnis er hann vinnur að, er persónulega ábyrgur fyrir greiðslu á útlögðum kostnaði og þóknun þess lögmanns, nema um annað sé beinlínis samið."

Með öðrum orðum er það svo, að þegar lögmenn, sem hafa flutt reksturinn í kringum lögmannsstörf sín inn í félag með takmarkaðri ábyrgð, fela öðrum lögmönnum að leysa úr einhverjum tilteknum verkefnum sem þeir eru að fást við, bera þeir óskipta ábyrgð með einka-/hlutafélaginu á greiðslum til lögmannanna, sem þeir fela verkefnin. Reglan á sér lagastoð, enda eru siðareglur LMFÍ settar með stoð í 2. mgr. 5. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sem leggur þá skyldu á félagið að setja félagsmönnum sínum siðareglur.

Á þessa reglu reyndi nýverið í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-949/2017. Í málinu hafði lögmanni og einkahlutafélagi hans verið stefnt til greiðslu reiknings, gefnum út af einkahlutafélagi undirritaðs, ESJA Legal ehf. Hinn stefndi lögmaður og félag hans kröfðust frávísunar málsins, einkum á grundvelli þess "að stefndu báðir, [einkahlutafélagið] og [lögmaðurinn persónulega], geti ekki borið óskipta ábyrgð á hinum umþrætta reikningi stefnanda frá 17. nóvember 2016. Ekki beri þeir óskipta efndaskyldu á reikningnum sem einvörðungu sé gefinn út á stefnda [einkahlutafélagið]. Stefndu hafi því ekki óskipta aðild að máli þessu í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála."

Til viðbótar framangreindu krafðist lögmaðurinn í eigin nafni og f.h. einkahlutafélagsins að málinu yrði frávísað, á grundvelli þess að málið væri vanreifað og það ylli því að málinu ætti að vísa frá dómi.

ESJA Legal ehf. krafðist þess að frávísunarkröfunni yrði hrundið og að málið yrði tekið til efnismeðferðar, á grundvelli þeirra sjónarmiða sem tíunduð voru að ofan. Þá var fullyrðingum stefndu um að málið væri vanreifað hafnað.

Í niðurstöðu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur var fallist á sjónarmið ESJU Legal ehf., með eftirfarandi rökstuðningi:

"Aðild stefndu að málinu er skýrð í stefnu með vísan til 29. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands, Codex Ethicus, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, þvert á það sem stefndu halda fram. Glögglega má ráða af stefnu að aðild stefnda l[ögmannsins], óskipt með stefnda [einkahlutafélaginu], er afmörkuð með hliðsjón af fyrirmælum þess ákvæðis. Að mati dómsins var stefnanda rétt að haga aðild málsins með þeim hætti með þeim hætti sem hann gjörir, enda verður ekki annað séð en að stefndu bæru óskipta skyldu á efndum umkrafðrar fjárhæðar, yrði á annað borð fallist á hana í efnismeðferð málsins."

Hvað varðar sjónarmið um vanreifun sagði í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur:

"Jafnframt verður ekki annað séð en að hægur vandi verði að útskýra þau atriði sem stefndi telur að skorti á í málinu undir rekstri þess að svo miklu leyti sem slíkt verður talið nauðsynlegt. Þá er það mat dómsins að fyrir stefndu, sem sannanlega áttu í því viðskiptasambandi við stefnanda, sem sakarefni málsins varðar, sé það engum vandkvæðum bundið að verjast efnishlið málsins. Þannig eru engar vísbendingar um annað en að hér sé um að ræða mjög algengan og hefðbundinn málatilbúnað í sambærilegum viðskiptasamböndum, sem dómurinn sér ekki betur en að hafi verið látinn óátalinn um árabil í íslenskri dómaframkvæmd.

Málið bíður nú efnismeðferðar.

Áhugaverðar greinar
Nýlegar greinar
Sarpurinn
Tögg

© 2017 // ESJA Legal ehf. Allur réttur áskilinn.

  • Facebook Clean
  • LinkedIn Clean