Sýknað af "sérstaklega hættulegri" líkamsárás

Tveir menn voru sýknaðir í upphafi ársins í líkamsárásarmáli sem höfðað var gegn þeim fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra. Undirritaður og Magnús Davíð Norðdahl hdl. voru verjendur mannanna.

Í málinu voru X og Z ákærðir fyrir "sérstaklega hættulega líkamsárás" með því að hafa ráðist á A og slegið hann í andlitið og sparkað ítrekað í höfuð, bak og síðu hans. Samkvæmt ákæru var hin meinta líkamsárás tvímenninganna sögð hafa valdið því að augntóftarbein brotnaði í A, rifbein brotnaði ásamt þremur lendarhryggjarliðum, hann fékk undirhúðarloft í kringum annað augað í brjóstholi og aðra minni áverka. Ákært var fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

X og Z neituðu báðir sök og kröfðust sýknu. Bentu verjendur þeirra á að mikill fjöldi fólks var kominn saman á vettvangi árásarinnar, en að engin af þeim vitnum sem gáfu skýrslu hjá lögreglu eða komu fyrir dóminn, gátu borið um þátt X og Z. Var þetta sérstaklega leitt í ljós með hnitmiðuðum spurningum til vitna fyrir dóminum.

Þótti ljóst að "ráðist var að brotaþola í umrætt sinn og honum veittir áverkar sem lýst er í ákæru," segir í dóminum. "Einnig er ljóst að ákærðu voru á staðnum og virðast hafa haft sig nokkuð í frammi, sbr. framburð [vitnanna B og L]. Hitt verður ekki talið sannað að þeir hafi haft sig svo í frammi sem í ákæru er lýst. Þrátt fyrir fjölda vitna eru engin sem bera um að þeir hafi slegið og sparkað í brotaþola nema hann sjálfur, sem

segist hafa fengið eitt spark frá hvorum. Með tilliti til þess að fleiri virðast hafa haft sig í frammi á vettvangi en ákærðu verður frásögn hans ekki talin nægileg sönnun um þetta. Eftir þessu verður að telja skynsamlegan vafa leika á því að ákærðu hafi framið þann verknað sem þeim er gefinn að sök í ákæru. Ber samkvæmt því að sýkna þá og vísa bótakröfu frá dómi."

Áhugaverðar greinar
Nýlegar greinar
Sarpurinn
Tögg

© 2017 // ESJA Legal ehf. Allur réttur áskilinn.

  • Facebook Clean
  • LinkedIn Clean